▴ Stofan 2/2 ▴

Á sunnudagskvöldið skrifaði ég eftirfarandi: "Ég stend heldur betur við loforðin, og það á fyrsta degi vikunnar." Svo ekki orðinu meir, haha. En það er nú bara þriðjudagskvöld. Ekki svo slæmur árangur.

Byrjum á byrjuninni. Innflutningsdagur, 1. apríl 2011. Panell í loftinu, hangandi Rússar (the bad kind) og stofan virkar þrisvar sinnum minni. Myndin er líka minni, en það kemur málinu ekkert við.

24 tímum síðar. Loftið var málað hvítt og þvílíkur munur. Allt í drasli á þessari mynd en þið bara lítið fram hjá því.

Svo liðu tvö ár þar sem allskonar tilfæringar og breytingar á stofunni voru ekki myndaðar né skjalfestar. Um mitt ár 2013, eftir að ég fékk mér nýjan sófa, leit hún einhvernvegin svona út.

Og ef einhver er búinn að gleyma hversu frábær gamli sófinn minn var, gjöriði svo vel.

Þá hugsa ég að við séum stödd í lok febrúar 2014. Þá misstum við tímabundið vitið, stofan tekin í nefið samhliða því að stigaganginum var svo gott sem rústað og komið í ásættanlegt horf aftur.

Ég get reyndar ekki eignað mér neitt af breytingunum á stofunni. Hjalti minn hafði úrslita atkvæðið við valið á nýja skenkinum og tók svo alla málningarvinnuna að sér. Ég sat reyndar ekki aðgerðarlaus á meðan, halló múrbrot, halló spartl. Eftir að skenkurinn var kominn, en áður en að við máluðum leit þetta svona út. Afsakið svakalega léleg símamyndavélagæði. Já og Sigmund í sjónvarpinu.

Erfiðasta við þetta allt saman var að velja litinn á stofuna. Við sátum hérna í sófanum eitt kvöldið (þar sem ég sit/ligg núna) og ég hálf mumbla eitthvað hvort að það væri kannski næs að mála stofuna gráa. Hjalti greip þessa hugmynd heldur betur lofti og það var ekki aftur snúið. Ég hugsa að ég hafi eytt alla veganna 40 mínútum með litaprufunum í Húsasmiðjunni eftir að Hjalti var búinn að fara þangað og koma heim með 3 litaprufur sem voru allar hálf ómögulegar. Hversu erfitt er að finna gráan lit. 

Við enduðum á því að velja engan af ofangreindum litum. Heldur litinn sem er einum tóni ljósari heldur en efsta prufan í miðjunni. Hann heitir Morgendis og er nr. 9915 frá Jotun. Líkt og með baðherbergið og skrifstofuna þá tókum við litinn í supermöttu sem mér finnst koma frábærlega út. 

IMG_5739.jpg

Ég er mjög ánægð með útkomuna. Ég vildi fá alveg kaldan lit og þessi ætti að vera það enda alveg hrár grár (gott rím). Mér finnst ég samt sjá smá rauðan blæ á honum stundum, en ég held að það séu bara ljósin og parketið á plata mig. Næst verðum við kannski enn hugrakkari og förum einum tóni dekkra. 

En nóg af kjaftæði. Núna er komið að góða stöffinu. 

IMG_6572.jpg

Þetta skerpir svo á öllu! Listar og gluggar og listaverk verða þúsundsinnum fallegri eftir þessar breytingar.

Ohh hversu fallegt! Skennkurinn heitir Curat og er frá ILVA. Sagan af því hvernig við loksins fengum hann í hendurnar (í hendurnar, segir maður það kannski bara um börn?) er mjög löng og dramatísk og ég ætla því að hlífa ykkur við henni. Tímaritastandinn fékk ég fyrir um 2 árum í Habitat, á útsölu, fáránlega góð kaup. Nýjasta blómið, indjánafjöðrin, stendur á nýja uppáhalds hlutnum okkar, steyptum blómapotti (á hvolfi) sem er líka frá Habitat. Mögulega uppáhalds búðin mín.

Tímabundna heimili veggspjaldsins eftir hana Nynne Rosenvinge sem að ég fékk hjá Snúrunni.

IMG_5882.jpg

Ein í lokin, fyrir alla fyrir&eftir perrana.

fyrir&eftir.jpg

▴ Stofan 1/2▴

Skemmtilegar fréttir! UNDIR SÚÐ verður í smá innliti í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. Það voru teknar myndir hér hátt og lágt í dag og ég hlakka mjög til þess að sjá útkomuna. Mæli með að allir næli sér í blaðið.

Þessi heimsókn minnti mig á að ég var aldrei búin að sýna ykkur myndir úr stofunni minni sem ég tók sama dag og Hús og híbýli komu við. Ég get því eiginlega ekki leyft ykkur að sjá stofuna eins og hún er eftir breytingarnar fyrr en að þið eruð búin að sjá hvernig hún var fyrir þær. Þannig að. Hér kemur þetta. Svo fái þið að sjá nýju myndirnar í næstu viku með smá forskoti á sunnudaginn.

Sjáiði fínu myndina okkar á veggnum? Nei, hélt einmitt ekki.

IMG_6164.jpg

Sótið á veggjunum er hinsvegar einstaklega áberandi. Lausnin? Mála yfir það.

IMG_6265.jpg

▴ og það varð ljós ▴

Eins og áður hefur komið fram, þá er bróðir minn einstaklega hæfieikaríkur. Hann er til að mynda mjög góður í að tengja ljós. Ég kann það alveg, fékk mjög góða kennslustund í þessu hjá pabba í gamla daga, en það er einhvern veginn miklu auðveldara að hringja í Egil, bjóða honum í mat, og fá nýtt ljós í staðinn. 

Fyrir nokkru þá gerði ég einmitt það. Mig vantaði leslampa við rúmið mitt og hafði, eftir mikið hangs á Pinterest, að útfæra hann í líkingu við þennan hér.

Útkoman finnst mér eiginlega betri en fyrirmyndin og ótrúlega auðvelt að framkvæma. 

Það sem þarf í svona lampa er:

  • Lampasnúra - fallegar ofnar lampasnúrur í mörgum mismunandi litum fást í Glóey.
  • Hilluberi - þennan fékk ég í Bauhaus en það eru líka margir fallegir og ódýrir til í IKEA
  • Tré(eða bara einhvernvegin)kúlur til að skreyta með - fást í öllum föndurbúðum
  • Pera - þessi er frá Danlamp og er fengin í heildsölunni Jóhann Ólafsson & Co
  • Ljósastæði - hægt að nota hvaða ljósastæði sem er (sem peran þín passar í), ég notaði fallegt keramik perustæði úr Glóey
  • Kló og slökkvitakka - fékk bæði í Glóey
  • Borvél, töng, beittan hníf og skrúfur

Ég ætlaði að bjóða upp á nákvæmar leiðbeiningar um hvernig á að tengja þetta allt saman en ég ákvað að bíða aðeins með það. Næst þegar við systkinin tengjum eitthvert ljós ætla ég að taka myndir skref fyrir skref til þess að þetta verði nálægt því að vera skiljanlegt hjá mér. Þangað til þá bendi ég á internetið. Ótrúlegt hvað það getur kennt manni. Í sárabætur fái þið fleiri myndir af fallega ljósinu mínu (og kanínukrúttinu).

kanína.jpg

▴ grænt ▴

alltergrænt.jpg

Eitt dimmt síðdegi í janúar lagði ég leið mína í Garðheima í þeim tilgangi að fjárfæsta í grænu gulli, þ.e. pottaplöntum. Ég hef aldrei, og þá meina ég aldrei, getað haldið lífið í blómum. Margoft drepið kaktusa, ég sver það. Undanfarið hef ég þó reynt af öllum krafti að halda lífi í nokkrum þykkblöðungum enda með því fallegasta sem ég veit.

Þessir heilluðu mig í Los Angeles í haust. 

Þessir heilluðu mig í Los Angeles í haust. 

Það hefur gengið svona upp og ofan. Hef því miður murkað lífið úr nokkrum en alltaf staðið upp aftur og keypt nýjan í staðinn. Það kveikti hjá mér smá bakteríu og eitt og eitt blóm hefur verið að laumast inn til mín í vetur. Hjalti hefur samt enn yfirumsjón með vökvun og aðhlynningu, meðan ég er að reyna að fá græna fingur. 

Þetta er greyið sem hefur lifað lengst. Nýverið tók hann mjög undarlegan vaxtarkipp.

þykkb2.jpg

Þetta krútt tók nýlega við af öðru kaktusakrútti sem gafst upp á mér. Hvort að það var fyrir ofvökvun eða ofþurk veit ég ekki. 

Allavegana, ég var víst að tala um að ég hafi farið í Garðheima, svo fór ég bara eitthvað að blaðra. Það voru pottablómadagar hjá þeim og 20% afsláttur af öllum blómum, jeijj. Ég fór og hamstraði. Bróður mínum, sem var píndur með, fannst ekkert rosalega gaman. Ég var lengi. 

blóm.jpg

Ótrúlega mikið af fallegum blómum! Ég var sérstaklega hrifin af grænu bauna blóminu. Það heitir pottþétt Ora. Ég endaði á að kaupa mér tvö blóm og einn kaktus. 

Fyrra blómið fékk stofugluggann. Það kúrir þar alsælt í janúarbirtunni og bíður vors. Stundum fá hin blómin að koma í heimsókn í sólina.

blomgluggi.jpg

Seinna blómið, sem heitir piparskott á heima inni á baði. Í nýrri hillu. Hún er svo ný að hún var ekki einusinni komin upp á vegg þegar við tókum myndirnar af baðinu um daginn. En hér er hún og blómið. Vonandi, með tímanum, á skottið eftir að vaxa og lafa meira fram af hillunni. Það er yndislegt að hafa blóm inni á baði.

blombad.jpg

▴ BAÐIÐ ▴

Það er komið að  því. Baðið er tilbúið. Það er búið að taka af því myndir. Síðasti naglinn var nelgdur í vegginn í gær um það bil 3 sekúndum áður en fyrsta myndin var tekin. 

Fyrst smá upprifjun. Svona leit baðherbergið út þegar ég flutti inn. Ekki svo slæmt myndi einhver líklega einhver hugsa en eftir að hafa búið hérna í smá tíma þá fengum við mjög mikla leið á panelnum í loftinu og vaskaskápurinn var einstaklega illa hannaður. Eina sem hann gerði (utan við að geyma vaskinn) var að taka pláss án þess að í honum væri nokkurt geymslupláss og hægt og rólega flagna og fara í taugarnar á mér. 

tumblr_lj7ewryLS11qgux35.jpg

Svo máluðum við loftið og veggina. Þá leit þetta einhvern veginn svona út. 

bad1.jpg

Svo var brotið og flísalagt, flísalagt og flísalagt. Þeir sem eru búnir að gleyma eða bara hafa gaman af því að skoða myndir af flísalögn, ýtið hér

IMG_3936.jpg

Við létum þó ekki þar við sitja. Fólk þarf vatn. Fólk þarf að geta tannburstað sig. Fólk þarf vask. Þvottavél, handklæði og allskonar drasl. Við keyptum okkur hinn sívinsæla GODMORGON vaskaskáp frá IKEA, BRÅVIKEN vask og LUNDSKÄR blöndunartæki. Fyrst hafði ég hugsað mér að gera þetta í tveimur áföndum, svona aðeins að reyna að hugsa um fjármálin, en svo var frekar mikil rökleysa að bogra við að flísaleggja undir gamla vaskaskápinn og þurfa svo að rífa allt upp aftur þegar ég tímdi að kaupa mér vask. Vinnuaflið var líka til taks, mjög nauðsynlegur hluti af þessu öllu saman. Ég kann ekki að tengja vatnslás og hengja upp IKEA skáp án þess að lesa leiðbeiningarnar. Það kann hinsegar bróðir minn af ástæðum mér ókunnum. 

Nú held ég að það sé ekki eftir neinu að bíða. Ég ætla að leyfa myndunum að tala. 

IMG_0295.jpg
IMG_0309.jpg
IMG_0328.jpg
IMG_0340.jpg
IMG_0331.jpg
IMG_0312.jpg
IMG_0360.jpg

Ég hef áður sagt það, og segi það enn, það er mjög erfitt að taka eins fyrir og eftir mynd. Í hita leiksins á þetta alveg til að gleymast. Hér kemur okkar besta tilraun. Ég segi okkar, því það má víst ekki gleymast að þakka elskulegum ástmanni fyrir að taka myndirnar fyrir mig. Eins bróður fyrir að lána okkur nýju myndavélina sína sem gerði þetta allt saman mögulegt í janúar myrkrinu (þetta var í alvöru talað svona eins klukkutíma gluggi sem myndatakan var möguleg). Án ykkar væri ég ekkert, Ást.

fyrirogeftirbad.jpg