▴ og það varð ljós ▴

Eins og áður hefur komið fram, þá er bróðir minn einstaklega hæfieikaríkur. Hann er til að mynda mjög góður í að tengja ljós. Ég kann það alveg, fékk mjög góða kennslustund í þessu hjá pabba í gamla daga, en það er einhvern veginn miklu auðveldara að hringja í Egil, bjóða honum í mat, og fá nýtt ljós í staðinn. 

Fyrir nokkru þá gerði ég einmitt það. Mig vantaði leslampa við rúmið mitt og hafði, eftir mikið hangs á Pinterest, að útfæra hann í líkingu við þennan hér.

Útkoman finnst mér eiginlega betri en fyrirmyndin og ótrúlega auðvelt að framkvæma. 

Það sem þarf í svona lampa er:

 • Lampasnúra - fallegar ofnar lampasnúrur í mörgum mismunandi litum fást í Glóey.
 • Hilluberi - þennan fékk ég í Bauhaus en það eru líka margir fallegir og ódýrir til í IKEA
 • Tré(eða bara einhvernvegin)kúlur til að skreyta með - fást í öllum föndurbúðum
 • Pera - þessi er frá Danlamp og er fengin í heildsölunni Jóhann Ólafsson & Co
 • Ljósastæði - hægt að nota hvaða ljósastæði sem er (sem peran þín passar í), ég notaði fallegt keramik perustæði úr Glóey
 • Kló og slökkvitakka - fékk bæði í Glóey
 • Borvél, töng, beittan hníf og skrúfur

Ég ætlaði að bjóða upp á nákvæmar leiðbeiningar um hvernig á að tengja þetta allt saman en ég ákvað að bíða aðeins með það. Næst þegar við systkinin tengjum eitthvert ljós ætla ég að taka myndir skref fyrir skref til þess að þetta verði nálægt því að vera skiljanlegt hjá mér. Þangað til þá bendi ég á internetið. Ótrúlegt hvað það getur kennt manni. Í sárabætur fái þið fleiri myndir af fallega ljósinu mínu (og kanínukrúttinu).

kanína.jpg

▴ what does the fox say? ▴

Þegar ég var að skrifa meistararitgerðina mína fann ég mér ótrúlegustu hluti til að gera annað en að skrifa, svona eins og að kaupa íbúð og fara ótal, ótal ferðir í Góða hirðinn. Þegar ég segi ótal þá meina ég óteljandi ótal. Ég held að ég hafi verið orðin fíkill á háu stigi. Þegar ég var búin að sanka að mér svo miklu dóti og allt of mörgum bókum þá ákvað ég að reyna að hafa smá hemil á mér. Þú veist, fara bara einu sinni í mánuði ekki einu sinni í viku. Það tókst ágætlega en mér finnst samt enn alveg rosalega skemmtilegt að fara þarna og gramsla og tala nú ekki um ef að ég finn eitthvað frábært á svo gott sem engan pening. Reyndar finnst mér verðin hjá þeim hafa hækkað óþarflega mikið en það er önnur saga. 

Allavegana. Í september á síðast ári þá keypti ég ótrúlega fallega mynd frá twamies á Etsy (önnur uppáhaldsbúð ef út í það er farið). Eftir að hún var komin til landsins tók endalausan tíma að finna ramma, ég viðurkenni þó að ég fór kannski ekki í allar réttu búðirnar en ég var alltaf með augun opin, en það virðist ekki vera til of mikið af römmum sem eru hvítir ferningar. 

Lausnina fann ég í Góða hirðinum um daginn. Ég keypti gamlan fallegan ramma sem passaði akkurat fyrir myndina og málaði hann hvítan. 

IMG_5778.jpg

Það eina sem þarf fyrir svona yfirhalningu er:

 • Málning og pensill.

Ég notaði LADY Interior Finish frá Jotun. Þetta er mjög þægileg málning á allt tréverk, hún er með akrílgrunni þannig að það er líka auðvelt að þrífa pensla og skítuga putta eftir á. 

Ég þurfi að mála þrjár umferðir á rammann. Hérna er hann eftir eina...

... og eftir þrjár.

Ég er mjög ánægð með loka niðurstöðuna. Líka algjör munur að borga ekki nema 100 kr. og eina kvöldstund af dundi fyrir rammann. Verkefnið tók mig ekki nema 3 tíma að þurktíma meðtöldum. Fínt föndur á mánudagskvöldi. Myndin úr rammanum fannst mér reyndar mjög falleg. Kannski finn ég heimili fyrir hana einhvern tímann seinna. 

IMG_5774.jpg

Rebbi litli á núna heima inni á baði. Mér finnst eitthvað svo huggulegt að hafa list á baðherberginu. 

Nú er bara um að gera að finna gamla ramma og mála þá í öllum regnbogans litum.

▴ krítarveggur ▴

Það er dimmt og það er kalt. Það fer ekki fram hjá neinum. Ég get ekki tekið myndir afþví að það er alltaf myrkur (góð vísa er aldrei of oft kveðin). Það er því um að gera að gleðja ykkur með einu gömlu og gulu verkefni. Ég dundaði mér við að mála smá veggbút í eldhúsinu mínu í afskaplega fallegum gulum lit sumarið 2012. Ef ég man rétt gerði ég það sömu helgi og strákarnir smíðuðu svalir. Það er kannski ekki neitt sérstaklega merkilegt við það að mála um fermeter af eldhúsinnréttingu gulan. En það sem gerir þennan veggbút merkilegan og frásögu færandi er að hann varð við þessar æfingar mínar að krítarvegg. Ég vildi hafa vegginn gulan og hafði alveg sérstakan lit í huga. Ég fór þess vegna með jakka sem að ég á og svo skemmtilega vill til að er í téðum lit og bað góða manninn í Húsasmiðjunni að útbúa málningarprufi í þeim lit. Þeir skanna hlutinn sem maður kemur með (getur verið hvað sem er), litagreina og blanda svo málningu í þeim lit. Tæknin. Ég mæli hinsvegar ekkert sérstaklega með því að ræða áætlanir ykkar um að blanda fúgu saman við málninguna við þessa annars góðu menn. Þeir horfðu undarlega á mig og bentu mér ekki mjög góðfúslega á að þeir tækju enga ábyrgð á því að þetta myndi virka hjá mér (ég hinsvegar tek fulla ábyrgð á þessum leiðbeiningum mínum og veit að þær virka).

Þetta er veggurinn sem um ræðir. I rauninni ekki veggur heldur hluti af eldhúsinnréttingunni (sem, svona þér að segja, ég hata). 

tumblr_lj7esouJq21qgux35.jpg

Úff, ég fæ hroll við að horfa á þessa mynd. Það er svo margt sem er að þessu eldhúsi. Svo margt. Ég skil ekkert í því afhverju ég er ekki búin að vinna í Lottó til þess að geta tæklað þetta. 

Allavegana. Krítarveggur. Hér er uppskriftin:

Þú þarft:

 • Grunn. Þegar málað er á annað en málaðan vegg, t.d. spónlagða eldhúsinnréttingu, er rétt að grunna flötin áður en hann er málaður.
 • Málningu að eigin vali, þó er best að nota málningu með lágu glansstigi. Ég þurfti minna en hálfan líter á vegginn minn.
 • Dall til þess að blanda málninguna í, skyrdollur eru rosa sniðugar til slíks brúks.
 • Fín flísafúga. Já þú heyrðir rétt, fúga. Þú finnur hana í múrdeildum í byggingavöruverslunum. Ég notaði hvíta fúgu og hugsa að það sé nú skynsamlegast en það fer allt eftir því hvernig málningin þín er á litinn. 
 • Prik til þess að hræra með. Einnig má notast við prjóna, hnífa, skrúfjárn eða annað langt og mjótt. Ég notaði upprúllaðan íslenskan fána frá 17. júní. 
 • Pensil og/eða málningarúllu. Ég mæli með bæði.
 • Sandpappír, grófleiki 150.
 • Krítar.
 • Svamp.

Svona gerir maður:

1) Ef flöturinn sem á að mála er í eldhúsi er gott að þvo hann vel með fituleysandi efni (uppþvottalögur gott fólk!). Eins má sanda flötinn örlítið áður en maður málar en ég hreinlega nennti því ekki svo ég lét þvottinn duga.

2) Grunnur. Með venjulegum grunni er máluð ein umferð ef flöturinn er eins og í mínu tilfelli eldhúsinnrétting eða ef um er að ræða tré flöt sem ekki hefur verið málaður áður. 

grunnur.jpg

3) Blanda málninguna! Í hverja 250 ml af málningu fara tvær matskeiðar af fúgu. Ég mæli ekki með því að blanda mikið meira en hálfan lítra í einu. Það þarf svo að hræra vel í blöndunni til þess að tryggja að það séu engir köglar í henni. 

4) Svo er bara að mála. Ég notaði pensil til þess að mála rammann og í hornin en svo millistóra rúllu fyrir rest. Ein umferð dugði til þess að þekja alveg en það er alveg möguleiki að þú þurfir að fara tvær. 

IMAG1294.jpg

5) Þegar málningin er orðin þurr þá þarf að pússa yfir flötinn með sandpappír og þurka rykið burtu.

6) Að lokum er mælt með því að nudda hliðinni á krít yfir allan flötinn og þvo hana svo burtu með örlítið rökum svampi. 

vscocam_1389553475.724094.IMG_5277.jpg

Í dag (og september) lítur veggurinn minn svona út, en hann breytist dag frá degi. Stundum er hann dagatal, stundum er hann listaverk eftir litla putta og stundum er hann innkaupalisti. 

IMG_3110.jpg
vscocam_1389553476.964152.IMG_5288.JPG

Þetta er ekkert mál og ég hvet alla til þess að búa sér til smá krítartöflu. Það þarf ekki endilega að vera heill veggur heldur getur krítartaflan tekið sér hvaða form sem er, á hvaða vegg sem er. Algjör barbapabbi. Eina sem er erfitt við þetta er að velja litinn!

litir.jpg