▴ what does the fox say? ▴

Þegar ég var að skrifa meistararitgerðina mína fann ég mér ótrúlegustu hluti til að gera annað en að skrifa, svona eins og að kaupa íbúð og fara ótal, ótal ferðir í Góða hirðinn. Þegar ég segi ótal þá meina ég óteljandi ótal. Ég held að ég hafi verið orðin fíkill á háu stigi. Þegar ég var búin að sanka að mér svo miklu dóti og allt of mörgum bókum þá ákvað ég að reyna að hafa smá hemil á mér. Þú veist, fara bara einu sinni í mánuði ekki einu sinni í viku. Það tókst ágætlega en mér finnst samt enn alveg rosalega skemmtilegt að fara þarna og gramsla og tala nú ekki um ef að ég finn eitthvað frábært á svo gott sem engan pening. Reyndar finnst mér verðin hjá þeim hafa hækkað óþarflega mikið en það er önnur saga. 

Allavegana. Í september á síðast ári þá keypti ég ótrúlega fallega mynd frá twamies á Etsy (önnur uppáhaldsbúð ef út í það er farið). Eftir að hún var komin til landsins tók endalausan tíma að finna ramma, ég viðurkenni þó að ég fór kannski ekki í allar réttu búðirnar en ég var alltaf með augun opin, en það virðist ekki vera til of mikið af römmum sem eru hvítir ferningar. 

Lausnina fann ég í Góða hirðinum um daginn. Ég keypti gamlan fallegan ramma sem passaði akkurat fyrir myndina og málaði hann hvítan. 

IMG_5778.jpg

Það eina sem þarf fyrir svona yfirhalningu er:

  • Málning og pensill.

Ég notaði LADY Interior Finish frá Jotun. Þetta er mjög þægileg málning á allt tréverk, hún er með akrílgrunni þannig að það er líka auðvelt að þrífa pensla og skítuga putta eftir á. 

Ég þurfi að mála þrjár umferðir á rammann. Hérna er hann eftir eina...

... og eftir þrjár.

Ég er mjög ánægð með loka niðurstöðuna. Líka algjör munur að borga ekki nema 100 kr. og eina kvöldstund af dundi fyrir rammann. Verkefnið tók mig ekki nema 3 tíma að þurktíma meðtöldum. Fínt föndur á mánudagskvöldi. Myndin úr rammanum fannst mér reyndar mjög falleg. Kannski finn ég heimili fyrir hana einhvern tímann seinna. 

IMG_5774.jpg

Rebbi litli á núna heima inni á baði. Mér finnst eitthvað svo huggulegt að hafa list á baðherberginu. 

Nú er bara um að gera að finna gamla ramma og mála þá í öllum regnbogans litum.