▴ og það varð ljós ▴

Eins og áður hefur komið fram, þá er bróðir minn einstaklega hæfieikaríkur. Hann er til að mynda mjög góður í að tengja ljós. Ég kann það alveg, fékk mjög góða kennslustund í þessu hjá pabba í gamla daga, en það er einhvern veginn miklu auðveldara að hringja í Egil, bjóða honum í mat, og fá nýtt ljós í staðinn. 

Fyrir nokkru þá gerði ég einmitt það. Mig vantaði leslampa við rúmið mitt og hafði, eftir mikið hangs á Pinterest, að útfæra hann í líkingu við þennan hér.

Útkoman finnst mér eiginlega betri en fyrirmyndin og ótrúlega auðvelt að framkvæma. 

Það sem þarf í svona lampa er:

  • Lampasnúra - fallegar ofnar lampasnúrur í mörgum mismunandi litum fást í Glóey.
  • Hilluberi - þennan fékk ég í Bauhaus en það eru líka margir fallegir og ódýrir til í IKEA
  • Tré(eða bara einhvernvegin)kúlur til að skreyta með - fást í öllum föndurbúðum
  • Pera - þessi er frá Danlamp og er fengin í heildsölunni Jóhann Ólafsson & Co
  • Ljósastæði - hægt að nota hvaða ljósastæði sem er (sem peran þín passar í), ég notaði fallegt keramik perustæði úr Glóey
  • Kló og slökkvitakka - fékk bæði í Glóey
  • Borvél, töng, beittan hníf og skrúfur

Ég ætlaði að bjóða upp á nákvæmar leiðbeiningar um hvernig á að tengja þetta allt saman en ég ákvað að bíða aðeins með það. Næst þegar við systkinin tengjum eitthvert ljós ætla ég að taka myndir skref fyrir skref til þess að þetta verði nálægt því að vera skiljanlegt hjá mér. Þangað til þá bendi ég á internetið. Ótrúlegt hvað það getur kennt manni. Í sárabætur fái þið fleiri myndir af fallega ljósinu mínu (og kanínukrúttinu).

kanína.jpg