▴ japan ▴

Ég hef alltaf verið einstaklega hrifin af japanskri hönnun, já eða bara öllu japönsku (sushi einhver?) Þeir gera hlutina á svo ótrúlega einfaldan hátt en samt með svo mikilli hlýju. Beinar línur, opin rými, fallegur viður, rimlar, rennihurðir og birta. 

Allt þetta er að finna á heimili Marike Hirasawa, teiknara sem býr i Tokyo. Veftímaritið LIFECYCLING (ég mæli með að eyða svona 2 tímum í að skoða alla síðuna) fjallaði nýverið um Hirasawa en þó aðalega húsið hennar. Ég varð hreinlega að deila því með ykkur. Sjá þessa fegurð! Pant búa svona þegar ég verð stór. 

Allar myndirnar eru eftir Mai Kise og fengnar af síðunni ideelifecycling.com

▴ síðdegissólin ▴

Ég stóðst ekki mátið að deila með ykkur nokkrum myndum frá því í dag. Síðdegissólin var ótrúleg. Þegar ég og Egill komm heim úr sundi var eins og íbúðin stæði í ljósum logum. Yndislegt merki um að nú styttist loks í vorið.

Allar myndirnar tók Egill Antonsson (bróðirinn).

Allar myndirnar tók Egill Antonsson (bróðirinn).

▴ UNDIR SÚÐ í Hús og híbýli ▴

Í nýjasta tölublaði Húsa og híbýla er að finna innlit í litlu íbúðina okkar undir súð og viðtal við mig. Ótrúlega gaman að sjá svona fallegar myndir af heimilinu sínu á prenti. Takk Hús og híbýli, takk kærlega fyrir mig. 

Þar má meðal annars finna mynd af skrifstofunni sem ég er fyrir löngu búin að lofa hér á bloggið. Þær koma um helgina, lofa, aftur. 

▴ og það varð ljós ▴

Eins og áður hefur komið fram, þá er bróðir minn einstaklega hæfieikaríkur. Hann er til að mynda mjög góður í að tengja ljós. Ég kann það alveg, fékk mjög góða kennslustund í þessu hjá pabba í gamla daga, en það er einhvern veginn miklu auðveldara að hringja í Egil, bjóða honum í mat, og fá nýtt ljós í staðinn. 

Fyrir nokkru þá gerði ég einmitt það. Mig vantaði leslampa við rúmið mitt og hafði, eftir mikið hangs á Pinterest, að útfæra hann í líkingu við þennan hér.

Útkoman finnst mér eiginlega betri en fyrirmyndin og ótrúlega auðvelt að framkvæma. 

Það sem þarf í svona lampa er:

  • Lampasnúra - fallegar ofnar lampasnúrur í mörgum mismunandi litum fást í Glóey.
  • Hilluberi - þennan fékk ég í Bauhaus en það eru líka margir fallegir og ódýrir til í IKEA
  • Tré(eða bara einhvernvegin)kúlur til að skreyta með - fást í öllum föndurbúðum
  • Pera - þessi er frá Danlamp og er fengin í heildsölunni Jóhann Ólafsson & Co
  • Ljósastæði - hægt að nota hvaða ljósastæði sem er (sem peran þín passar í), ég notaði fallegt keramik perustæði úr Glóey
  • Kló og slökkvitakka - fékk bæði í Glóey
  • Borvél, töng, beittan hníf og skrúfur

Ég ætlaði að bjóða upp á nákvæmar leiðbeiningar um hvernig á að tengja þetta allt saman en ég ákvað að bíða aðeins með það. Næst þegar við systkinin tengjum eitthvert ljós ætla ég að taka myndir skref fyrir skref til þess að þetta verði nálægt því að vera skiljanlegt hjá mér. Þangað til þá bendi ég á internetið. Ótrúlegt hvað það getur kennt manni. Í sárabætur fái þið fleiri myndir af fallega ljósinu mínu (og kanínukrúttinu).

kanína.jpg

▴ grænt ▴

alltergrænt.jpg

Eitt dimmt síðdegi í janúar lagði ég leið mína í Garðheima í þeim tilgangi að fjárfæsta í grænu gulli, þ.e. pottaplöntum. Ég hef aldrei, og þá meina ég aldrei, getað haldið lífið í blómum. Margoft drepið kaktusa, ég sver það. Undanfarið hef ég þó reynt af öllum krafti að halda lífi í nokkrum þykkblöðungum enda með því fallegasta sem ég veit.

Þessir heilluðu mig í Los Angeles í haust. 

Þessir heilluðu mig í Los Angeles í haust. 

Það hefur gengið svona upp og ofan. Hef því miður murkað lífið úr nokkrum en alltaf staðið upp aftur og keypt nýjan í staðinn. Það kveikti hjá mér smá bakteríu og eitt og eitt blóm hefur verið að laumast inn til mín í vetur. Hjalti hefur samt enn yfirumsjón með vökvun og aðhlynningu, meðan ég er að reyna að fá græna fingur. 

Þetta er greyið sem hefur lifað lengst. Nýverið tók hann mjög undarlegan vaxtarkipp.

þykkb2.jpg

Þetta krútt tók nýlega við af öðru kaktusakrútti sem gafst upp á mér. Hvort að það var fyrir ofvökvun eða ofþurk veit ég ekki. 

Allavegana, ég var víst að tala um að ég hafi farið í Garðheima, svo fór ég bara eitthvað að blaðra. Það voru pottablómadagar hjá þeim og 20% afsláttur af öllum blómum, jeijj. Ég fór og hamstraði. Bróður mínum, sem var píndur með, fannst ekkert rosalega gaman. Ég var lengi. 

blóm.jpg

Ótrúlega mikið af fallegum blómum! Ég var sérstaklega hrifin af grænu bauna blóminu. Það heitir pottþétt Ora. Ég endaði á að kaupa mér tvö blóm og einn kaktus. 

Fyrra blómið fékk stofugluggann. Það kúrir þar alsælt í janúarbirtunni og bíður vors. Stundum fá hin blómin að koma í heimsókn í sólina.

blomgluggi.jpg

Seinna blómið, sem heitir piparskott á heima inni á baði. Í nýrri hillu. Hún er svo ný að hún var ekki einusinni komin upp á vegg þegar við tókum myndirnar af baðinu um daginn. En hér er hún og blómið. Vonandi, með tímanum, á skottið eftir að vaxa og lafa meira fram af hillunni. Það er yndislegt að hafa blóm inni á baði.

blombad.jpg