▴ Hjá Sólveigu og Gretti ▴

Í yndislegri risíbúð á Njálsgötu búa þau Sólveig, Grettir og kötturinn Muggur. Þau keyptu íbúðina árið 2012 og eru heldur betur búin að taka til hendinni og koma sér vel fyrir. Íbúðin er björt og falleg og full af skemmtilegum munum sem þau hafa sankað að sér í gegnum árin (aðalega Sólveig held ég, hún er manneskjan sem býr til flöguskál úr gínuhaus og lampa úr gömlum hárblásara). 

Ég og Hjalti kíktum í heimsókn til þeirra einn fallegan sunnudag í október. Ég slúðraði og borðaði súkkulaði á meðan Hjalti tók myndir og klappaði kisa. 

NX8P1651.jpg

Aðalrými íbúðarinnar, sem er í dag, stofa, borðstofa og skrifstofuhorn, var hólfað niður þegar Sólveig og Grettir keyptu íbúðina. Þau rifu strax niður veggi og opnuðu loftið til þess að þessir fallegu bitar fengju að njóta sín.

NX8P1643.jpg

Muggi fannst þetta allt saman mjög áhugavert og vildi vera inn á sem flestum myndum enda stoltur heimiliskisi.

Þrátt fyrir að rýmið sé hálfpartinn undir súð nýtist það ótrúlega vel og er einstaklega bjart. Stofugluggarnir snúa í suður og það er á planinu að gera svalir út frá stofunni í suðvestur. Það myndi heldur betur ekki skemma fyrir á sólríkum sumardögum.

Þegar maður fer í þær æfingar að rífa niður veggi þá fylgir það oftast í kjölfarið að það þarf að skipta um gólfefni. Þau skötuhjú parketlögðu sjálf alla íbúðina, herbergi fyrir herbergi, sem eykur flæðið milli þeirra og opnar íbúðina enn meira.

NX8P1630.jpg

Húsgögnin og hlutirnir þeirra eru mjög skemmtileg og heimilisleg blanda af fallegum gömlum munum og nýju og í hverju horni má sjá eitthvað skemmtilegt.

NX8P1655.jpg
NX8P1727.jpg

Þrátt fyrir að vera búin að koma sér ótrúlega vel fyrir þá eru stórframkvæmdir á dagskrá á Njálsgötunni. Þau ætla nefnilega að færa eldhúsið (sem við náðum því miður ekki nógu góðri mynd af sökum skúringarfötu sem vildi endilega troða sér inn á þær allar) inn í opna rýmið og breyta eldhúsinu í annað svefnherbergi og vinnuaðstöðu. Ég er svo heppin að hafa náð að taka myndir fyrir breytingarnar og auðvitað tryggja mér rétt á að mæta aftur þegar þær eru búnar. Þið megið því eiga von á annari heimsókn til Sólveigar og Grettis þegar líða tekur á nýja árið. Ég hef trú á að þetta verði ótrúlega flott eldhús skástrik borðstofa skástrik stofa auk þess að það er mjög dýrmætt að næla sér í auka herbergi. 

NX8P1709.jpg

Þessa sveppi gerði vinkona okkar, Lilý Erla, í samvinnu við pabba sinn.

NX8P1663.jpg
NX8P1691.jpg

Ég held að ég hafi sjaldan séð jafn fallegan hraunlampa og þennan, litirnir eru alveg ótrúlegir og ég er mjög glöð að Sólveig hafi aldrei fundið almennilegan skerm á hann því hann nýtur sín best svona berhöfðaður.

NX8P1671.jpg
NX8P1665.jpg

Sólveig er með afskaplega græna fingur og íbúðin ber þess merki. Mér finnst jukkurnar hennar samt meira eins og útstyllingar eða listaverk heldur en venjuleg pottablóm. Ég vildi óska að mér tækist að halda lífinu í einhverju öðru en kaktusum (sem ég drep þó iðulega).

NX8P1674.jpg

Frúin var með Vigdísi á náttborðinu og svór fyrir það að þetta væri ekki sviðsett fyrir ljósmyndarann.

NX8P1682.jpg

Mér finnst ekki annað hægt en að ljúka þessu með mynd af honum Hans Muller. Þessi herramaður hefur fylgt Sólveigu síðan við útskrifuðumst úr menntaskóla, ef ekki lengur og hefur verið eins konar verndardádýr á öllum hennar heimilum. Svo er hann líka svo myndarlegur.

NX8P1718.jpg