▴ nú er það svart ▴

Um páskana máluðum ég og bróðir minn loftið og veggina á baðinu. Loftið fékk sömu meðferð og loftið í stofunni, nema við notuðum grunn fyrir baðherbergi. Það þurfti heilar fjórar umferðir. Ekkert sérstaklega auðvelt að mála panel og hvað þá upp fyrir sig. Ég stóð aðallega fyrir skemmtun og næringu á meðan litli bróðir fékk verk í axlirnar. 

Á veggina valdi ég litinn Dempet Sort (nr. 9938) úr línunni Pure Color frá LadyLitirnir í þessari línu eru alveg ótrúlega fallegir og allir alveg súper mattir sem mér finnst koma mjög vel út. Svo á líka að vera extra auðvelt að þrífa veggi sem hafa verið málaðir með þessari málningu. Það á eftir að koma í ljós, get ekki sagt að ég þrífi veggina mína reglulega.

 

IMG_0355.jpg
IMG_0364.jpg
IMG_0365.JPG

Byrjum á þremur fyrir myndum. Allt í rusli, ömurleg lýsing. Raunveruleikinn gott fólk, raunveruleikinn.

IMG_0368.jpg

Litaprufur eru eiginlega það besta við að mála. Það er fáránlega skemmtilegt að taka allt of mörg litaprufuspjöld í búðinni, helst í öllum regnbogans litum og vita svo ekkert hvað maður eigi að gera við öll þessi spjöld. Svo er mjög gefandi að mála smá part af vegg í einhverjum klikkuðum lit, eins og t.d. svörtum. Það er smá svona eins og að tússa á vegginn án þess að vera skammaður.

Ég fann rétta litinn í fyrstu tilraun enda var ég búin að liggja yfir litabæklingnum frá Lady. Hann fékk að hanga þarna í nokkra daga, starandi á okkur í hvert skipti sem við tylltum okkur á settið. Ég er ekki viss um að allir sem heimsóttu baðið mitt á þessu tímabili hafi skilið alveg hvað ég var að pæla, en sjáiði bara! 

 

IMG_0370.jpg

Um miðja nótt í mars. Allt í móðu. Búin að setja upp ca. 500 metra af málningarlímbandi og grunnur og ein umferð af málningu komin á loftið. Glöggir sjá kíttibyssu danglandi á baðbrúninni (já hún er í stíl við heftibyssuna) en við kíttuðum í stærstu kvistina og milli loftlistanna og panelsins til þess að það myndu ekki koma miklir skuggar þegar allt væri orðið hvítt. Við gerðum þetta líka í stofunni og það munaði alveg rosalega. 

 Ég vil einnig benda á að það er ekki besta hugmynd sem ég hef fengið að geyma málningarfötu með svartri málningu á hvítri klósettsetu. Ég lifi á brúninni. 

 

bad1.jpg

Fyrsta áfanga lokið og nú er það svart.

Ég hafði smá áhyggjur, og mamma líka, að við það að mála veggina svarta myndi baðherbergið virka minna og dimmara en ég held barasta ekki. Ef eitthvað þá virkar það stærra þar sem dökki liturinn gefur herberginu meiri dýpt. 

fyrireftir.jpg

Ein almennileg fyrir og eftir. Vantar samt almennilega eftir mynd úr hinni áttinni. Ég reyni að bæta úr því bráðlega.

Næst á dagskrá er að flísaleggja gólfið. Ég keypti flísar um daginn sem skrölta núna í skottinu á bílnum mínum. Það er stundum ekki svo næs að búa á þriðju hæð og vera ekki sterkur. Um leið og ég kem heim frá LA tek ég mér meitil og hamar í hönd og byrja að brjóta upp gömlu flísarnar. Ó hvað ég hlakka til að fá ryk út um allt, mmm. En það verður þess virði. Svo fallegt!

 

Það bíður líka einn kassi frá IKEA niðri í kjallara. Vonandi get ég sannfært pabba flísaleggjara að vera líka pabbi pípari í smá stund og setja upp nýjan vaskaskáp!