▴ TRENDIG 2013 ▴

Ég var að skoða finnsku bloggsíðuna Varpunen um daginn (hún er ein af mínum uppáhalds þó svo að ég skilji ekki eitt orð) og rak þá augun í rosalega fallegt hliðarborð sem minnti mig svolítið á Tea Trolley 900 og 901 sem Alvar Aalto hannaði árið 1936 (heldur betur á óskalistanum). 

Ég skrollaði í æsingi í gegnum finnskuna til þess að reyna að verða einhverju nærri um hvaðan gripurinn kemur. Heppni að IKEA er allstaðar bara IKEA

Borðið er hluti af nýrri línu frá IKEA sem heitir TRENDIG 2013 (linkurinn er á bresku IKEA svona þar sem hún er örlítið aðgengilegri heldur en sú finnska). TRENDIG 2013 er samsuða af kínverskri menningu og skandinavískri hönnun og samanstendur af hinum ýmsu vörum, allt frá borðstofuborði (sem mig langar sjúkt í) til diska með myndum af hinum heimsfræga Maneki-neko (Sólveig!!). Ég er aðallega hrifin af húsgögnunum úr línunni, annað er ansi litskrúðugt og mynstrað fyrir minn smekk en dæmi hver fyrir sig...

 

Þetta borð er á sama tíma einfalt, stílhreint og áhugavert. Einhvernveginn virka stóru hringirnir/dekkin með kassalaga rammanum. Væri einstakleglega fallegt barborð, glúggglúgg.

Lítill sætur kollur úr bambus.  

Mér finnst þessi skápur alveg rosalega skemmtilegur. Ég veit samt ekki alveg hvort ég myndi kaupa hann fyrir íbúðina mína, held að rauðu handföngin séu aðeins of mikið fyrir mig en þessi græni litur, mmmm. 

Þessi minnir nú óneitanlega á Wishbone Chair sem Hans J. Wegner hannaði árið 1944. IKEA nær reyndar ekki með tærnar þangað sem hr. Wegner er með hælana...

Þetta er uppáhalds varan mín úr línunni. Ég er stanslaust að leita mér að eldhús/borðstofuborði og þetta er bara svo gott sem fullkomið. Gegnheil eik og falleg hvít borðplata. Topparnir á fótunum sem koma upp í gegnum borðplötuna gefa borðinu svo extra karakter. Fær mig til að elska IKEA jafnvel meira (ef það er þá hægt).

Nú spyrja sig eflaust flestir, HVENÆR KEMUR ÞESSI LÍNA Í IKEA Á ÍSLANDI? Það var allavega það fyrsta sem þaut í gegnum huga minn þegar ég skoðaði finnsku IKEA síðuna með hjálp Google Translate.

Engar vísbendingar voru sjáanlegar á heimasíðu IKEA á Íslandi en maður deyr ekki ráðalaus, ó nei ó nei. Beint í netspjallið við hana. Þú ert númer eitt í röðinni. Þú ert númer eitt í röðinni. Þú ert nr. eitt í röðinni. Góðan daginn hvernig get ég aðstoðað? Hæ ég er með ólæknandi IKEA blæti, hvenær kemur nýja TRENDIG 2013 línan til Íslands? Þögn, löng þögn...

 Þegar netspjallsdaman loksins byrjaði að pikka hafði hún ekkert gott að segja. Ekkert. Það er nefnilega ólíklegt að línan komi í búðina hér á Íslandi og ef hún kemur þá verður það aldrei fyrr en á nýju ári. Grátur. Brostið IKEA hjarta. Stundum er ekki best að búa á Íslandi (ok oft). Við verðum þá bara að hugga okkur við fallegar myndir af þessum fallegu húsgögnum frá skandinavískum bloggurum...