▴ fallegt á föstudegi ▴

Á föstudögum þá virðist ég laðast einstaklega að myndum af svefnherbergjum. Kósí rúmföt, koddahrúgur og teppi. Skýrist ábyggilega af því að vinnuvikan er alveg að verða búin og eins og flestir þá get ég ekki beðið eftir að komast heim í helgarfrí. Reyndar er dagskrá fyrir helgina. Mála eins og eitt herbergi, laga til í fataskápnum (til að koma öllum nýju útlanda fötunum fyrir, jeijj), mögulega byrja að rífa flísarnar af baðherbergisgólfinu og reyna að gera notalegt í nýju "skrifstofunni" hans Hjalta. Já, ég gleymdi alveg að segja frá því að litli bróðir minn flutti út um síðustu helgi og því varð allt í einu til aukaherbergi  - þvílíkur munaður! Mjög skrítið samt og ég fór að hágráta þegar ég kvaddi litla Brand. Ég hef miklar áhyggjur af því hvort að hann fái nóg að borða á nýja staðnum en ætli við höfum ekki gott af smá aðskilnaði, bæði tvö. Hann lofar að koma oft í heimsókn og skipta um ljósaperur og tengja ljós í skiptum fyrir mat.

Góða helgi!