▴ rip it down ▴

Á köldu föstudagskvöldi í október, þegar maður er búinn að fara í sund með uppáhalds frænkum, borða föstudagspizzuna og horfa á Útsvar, þá er tilvalið að taka sér meitil í hönd og rífa upp flísar. Í rauninni ætlaði ég ekkert að gera þetta þarna um kvöldið heldur daginn eftir, en um leið og ég byrjaði þá var bara ekki nokkur leið að hætta. Það kom heldur ekki að sök að það var verið að rífa af flísar eða flísaleggja í öllum íbúðunum í húsinu fram eftir miðnætti þetta kvöld. Ég varð að falla í hópinn. 

Fyrr um daginn var ég búin að fara í Verkfæralagerinn (aldrei farið þarna áður, fáránlega mikil snilld) og keypt það sem ég taldi að væri nauðsynlegt við að rífa af flísar. Ég var búin að sjá fyrir mér að kaupa bara svona venjulegan meitil en svo áttu þeir til einn sem var eiginlega eins og skafa í laginu, þ.e. hausinn var breiðari en skaftið (sjá myndir). Þannig að ég keypti báða. Ég keypti líka sköfu til þess að hreinsa gólfið, hlífðarglerugu (ótrúlega mikilvæg) og risastóran svartan plastkassa til þess að setja flísabrotin í þannig að það væri auðveldara að koma þeim niður og á haugana.

Það var erfiðast að ná upp fyrstu flísinni. Ég reyndi bara eins og ég gat að ná upp fúgunni svona nokkurnvegin í kringum flísin alla og þá gat ég lamið meitlinum undir flísina og hún losnaði auðveldlega. Ég komst fljótt að því að sköfumeitillinn minn var miklu betri til verksins og ég notaði hann bara. Pabbi var síðan mjög afbrýðissamur yfir honum þannig að hann hlýtur að vera frábært verkfæri! Já svo er hann líka í stíl við heftibyssuna og kíttisprautuna (skor). 

 

IMG_3727.jpg

Þegar fyrstu tvær flísarnar voru farnar þá var restin bara auðveld, eða þú veist, auðvelt er náttúrulega afstætt.  Ég komst allavegana í gegnum þetta nokkuð skaðlaust, lamdi reyndar hamrinum í handarbakið á mér nokkrum sinnum en það þýðir ekkert nema bara power through. 

IMG_3738.JPG

Þegar þarna var komið sögu var ég orðin mjög æst og tók því engar fleiri myndir fyrr en ég var búin að taka allar þær flísar sem ég mögulega gat. Ég skildi eftir undir klósettinu og undir þvottavélinni einungis af þeim ástæðum að ég er engan vegin nógu sterk til þess að færa þvottavél og hafði ekki minnstu hugmynd um hvernig aftengja ætti klósett, losa það frá gólfinu og fjarlægja undan því flísar. 

IMG_3747.jpg

Ég náði oft alveg fjórum flísum heilum af í einu lagi þannig að þetta gekk fljótt fyrir sig. Ég held að í allt hafi ég ekki verið nema tvo tíma af þessu. Fróðir menn hafa hinsvegar sagt mér að ég hafi líklega verið mjög heppin og flísarnar alls ekki vel límdar á gólfið og þessvegna hafi þetta verið svona tiltölulega auðvelt.  

Á myndinni hérna fyrir ofan þá má sjá eina staðinn á gólfinu þar sem að flísarnar voru virkilega fastar, ekki mjög stórt svæði. Bæði var erfiðara að ná flísunum upp þarna og flísalímið sat fast við gólfið. 

IMG_3740.jpg
IMG_3749.jpg

Leiðinlegi parturinn var að sópa upp flísabrotum og steypuryki eftir allan hasarinn. Rykið fer út um allt, og þá meina ég allt og ég fann hvergi fægiskóflu þannig að þetta var hálf ómögulegt. Kassinn úr Verkfæralagernum kom hinsvegar að mjög góðum notum en ég hefði átt að kaupa tvo þar sem að hann dugði ekki alveg undir allar flísarnar og þegar hann var orðinn fullur (stappaður) þá var hann orðin það þungur að ég gat ekki lyft honum (það munar ekki um það hvað ég er sterk). 

IMG_3743.JPG

Daginn eftir komu pabbi og Egill til þess að hjálpa. Það þurfti að losa klósettið og rífa flísarnar undan því (reyndar komu þær allar upp með klósettinu), færa þvottavélina og skafa gólfið vel og hreinsa allt kítti. Það leið svo ekki á löngu eftir að pabbi var byrjaður að skafa gólfið að vaskaskápurinn fékk að fjúka, þar sem hann var jú fyrir.  

IMG_3783.jpg

Ykkur til upplýsinga þá eru klósettrör ógeðsleg. Ógeðsleg segi ég. Já og það er mjög óþægilegt að geta ekki farið á klósettið heima hjá sér í 3 daga. Þá er gott að eiga góða granna. Pabbi sagði ábyggilega yfir þrjátíu kúkabrandara á meðan hann var að losa þetta og þótti hann sjálfur einstaklega fyndinn. Mér þótti hann svona mis.

IMG_3765.jpg
IMG_3772.jpg
IMG_3775.jpg

Hæ! Þarna er ég, í gráu ofan á grátt ofan í baði. 

Eftir að allt var komið niður og allt var farið út þá tók pabbi sig til og skóf allt gólfði og hreinsaði. Ég ætlaði að gera það en föður fannst ég heldur hægvirk og pen við þetta þannig að hann rak mig út. Það hefur líklega ekki verið vitleysa hjá honum að hann yrði fljótari að þessu og kynni betur til verka af því að þetta gerðist: 

IMG_3778.JPG

Pabbi er sterkur, gæði hamarsins má þó draga í efa, enda unninn í BINGO með svindli. 

Svona leit baðherbergið út ca. 15 tímum eftir að ég byrjaði að rífa upp flísarnar. Tilbúið undir flísalögn eða réttarasagt tilbúið fyrir undirbúningsvinnu fyrir flísalög. 

IMG_3789.jpg

Að lokum ein framfaramynd...  (ég ætti mögulega að æfa mig í því að taka myndir frá sama sjónarhorni)

bad3.jpg