▴ ef ég nenni... ▴

Ég lagðist upp í rúm í gærkvöldi og ákvað að ég hefði vanrækt Undir súð of lengi. Skrifaði langan og vonandi skemmtilegan póst um jólatré, jólastress og jólagjafaóskir. Internetið ákvað svo klukkan þrjú í nótt þegar ég var að leggja lokahönd á herlegheitin að eyða honum. KvissBaraBúmm. Auðnin ein. Ég fór að sofa í fýlu og dreymdi svo fólk með ælupesti. Ég er eiginlega ennþá hálf fúl og nenni þessvegna ekki að endurskrifa þetta allt saman. 

Í stórum dráttum fjallaði þetta þó um hversu mikið ég vann í desember og hafði lítinn tíma til þess að jólast, til að mynda kaupa handa okkur jólatré. Þegar ég var alveg búin að gefa hugmyndina upp á bátinn (og var að væla yfir því) þá ákvað Hjalti minn að ég skyldi nú bara víst fá jólatré, þrátt fyrir að það væri bara tæp vika í að við færum norður til að eyða jólunum með fjölskyldunum okkar (heppilegt að pabbi minn og mamma hans og pabbi búa hlið við hlið!). Hann sótti mig því í vinnuna dagnn eftir og brunaði með mig upp í Garðheima þar sem að við völdum okkur einstaklega fallegt lítið tré. Það var síðan skreytt eftir kúnstarinnar reglum og á toppinn fór fína stjarnan sem við keyptum okkur í Kauptúninu (líka á facebook) síðast þegar við fórum til Akureyrar. Einstaklega skemmtileg búð sem að ég mæli með að Norðlendingar heimsæki (já og bara allir sem eiga leið hjá). Tilvist hennar eykur líkurnar á því að ég myndi vilja flytja aftur norður um alveg svona 10%. 

Undir súð í jólabúningnum lítur einhvern veginn svona út (það er, svona þér að segja, alveg svakalega erfitt að taka mynd af jólatréi). 

Jólatré.jpg
photo2.JPG
photo.JPG

Núna lifum við í vellystingum í foreldrahúsum sem keppast við að gefa okkur að borða. Getum ekki kvartað. 

Ég henti líka saman smá jólagjafaóskalista, ætlaði að vera búin að gera það fyrir löngu en svo hugsa ég að það sé best að birta hann bara svona korter í jól þegar allir eru örugglega búnir að kaupa gjafirnar handa mér. Það er nefnilega miklu skemmtilegra að fá eitthvað óvænt sem hittir í mark upp úr pökkunum heldur en eitthvað sem að maður veit hvað er. 

jólagjafalisti.jpg

1) Hvít skæri! Ég er búin að vera skæra sjúk upp á síðkastið og er alltaf að kaupa mér einhver svaka flott skæra sem síðan bíta ekki á nokkurn skapaðan hlut. Ég held samt að ég hitti naglann á höfuðið með hvítum skærum frá Fiskars

2) Apinn hans Kaj Bojesen. Þessi krúttlegi api var hannaður af Kaj Bojesen árið 1951 og hefur verið klassískt hönnunar íkon alla tíð síðan. Apaskottið fæst í Epal.

3) Perforated Calendar 2014. Dagatal hannað af hönnunartvíeykinu Snæfríð Þorsteins og Hildigunni Gunnarsdóttur. Selt undir merkjum Wrong For Hay. Fæst meðal annars í Mýrinni og hjá HAY. Ótrúlega skemmtilegt dagatal þar sem maður getur rifið hvern daginn sem líður af og séð hvernig árið þýtur hjá.

4) Hinn fullkomni túlipanavasi. Fæst meðal annars í Hrím

5) SAMSURIUM vasarnir frá Finnsdottir er með því fallegra sem ég hef séð. 

6) Kubus kertastjakinn frá by Lassen. 

7) Góð bók er ómissandi á jólunum. Efst á óskalistanum þessi jólin eru:

  • Fiskarnir hafa engar hendur eftir Jón Kalman Stefánsson.
  • Dísusaga - Konan með gulu töskuna eftir Vigdísi Grímsdóttur. 
  • 1983 eftir Eirík Guðmundsson.