▴ Skemill - DIY ▴

Þegar ég átti að vera að skrifa meistararitgerðina mína gerði ég margt sem að ég átti ekki að vera að gera. Þar á meðal kaupa skemil á uppsprengdu verði á internetinu.

 

tumblr_llyliiDOPD1qgux35.jpg

Það var búið að bera á viðinn þegar ég sótti skemilinn en áklæðið var frekar sjúskað og stakk mjög mikið, þannig að afmeðþað!

tumblr_llylqpQ9Qq1qgux35.jpg

 Svampurinn undir áklæðinu var ágætur og þá í merkingunni ágætt lala en ekki ágætt er betra en gott, en það var vel hægt að nota hann enda er ég ekki það fær bólstrari að einhverjar svampaðgerðir hefðu verið góð hugmynd.

tumblr_llymgikIDq1qgux35.jpg

Ég sneið áklæðið (sem er í raun gömul gardína úr Góða hirðinum sem kostaði 450 kr.) lauslega eftir gamla áklæðinu en þar sem að nýja áklæðið var hvítt ákváðum við að hafa það tvöfalt. 

Ég vildi hafa tölu á miðjum skemlinum þannig að við boraði 2 göt í plötuna til þess að hægt væri að þræða tvinnann (tvinninn var í raun sláturgarn) úr tölunni þar í gegn og strekkja á. Ég festi töluna með því að stinga fyrst í gegnum botninn neðan frá, síðan festi ég töluna vel bara í efnið (ekki plötuna og svampinn) og stakk svo nálinni í gegnum hitt gatið á plötunni, togaði vel í báða spottana og batt rembihnút. Ég klippti loks tvinnann og heftaði endana við plötuna.

Ég mæli með að gera þetta áður en að áklæðið er heftað fast.

*Athugið að mjög mikilvægt er að nota heftibyssu sem er í stíl við töluna*

tumblr_llz5p7QKw51qgux35.jpg

 Svo var bara að hefta og strekkja (en ekki of mikið), brjóta hornin fallega og rífa upp hefti og hefta aftur. Ég var löt og gerði þessvegna þau mistök að falda ekki efnið og hvað þá sikksakka það sem varð til þess að þegar við vorum búin að hefta hringinn fannst mér þetta ljótt afþví að það voru spottar útum allt og brúnin á efninu mjög ójöfn. Ég missti mig því aðeins í að rífa upp hefti, brjóta uppá efnið og hefta aftur. Sem ég hefði mjög vel getað sloppið við ef ég væri ekki svona löt.

tumblr_llz6ti87Mk1qgux35.jpg

Útkoman var mjög fín. Við söguðum líka aðeins neðan af fótunum þar sem að stólarnir okkar eru lágir og á þessu heimili eru þægindi ávallt í fyrirrúmi. 

Kostnaður:

  • Skemill: 5000 kr. 
  • Efni: 450 kr. 
  • Tala: 230 kr. 

Allt annað áttum við í ruslahaugnum sem að við köllum geymslu, mig minnir að heftibyssan hafi kostað ekki nema 1000 kr. í Húsasmiðjunni.