▴ flísapúsluspil ▴

Loksins á ég stund til þess að setjast niður og halda áfram með baðherbergissöguna. Það er búið að vera brjálað að gera, bæði í vinnunni og í heimsóknum og Bauhaus ferðum. Afrakstur einnar heimsóknarinnar mun birtast hér á síðunni innan skamms, falleg íbúð þar sem býr fallegt par og fallegur köttur. 

En aftur að baðherberginu, eða baðherbergisgólfinu réttara sagt. Hvert vorum við komin? Já, gólfið var tilbúið fyrir undirbúning fyrir flísalögn. Ekki mest spennandi parturinn af þessu öllu saman en samt mikilvægur (ekki spurja mig afhverju, pabbi bara sagði það). 

IMG_3789.jpg

Eftir að við vorum búin að hreinsa gólfð voða vel, skafa allt flísalím og fúgu burt og sópa, sópa og ryksuga, þá þurfti að grunna gólfið. Ég keypti allt efni í Flísabúðinni upp á Höfða (frábær þjónusta!), þar á meðal grunn fyrir gólfið. Þeir eru svo sniðugir að þú getur keypt afgang af grunni (líklega sem einhver hefur skilað), þannig að þú þarft ekki að kaupa heilan poka. Ég þurfti t.d. ekki nema 0.3 l. á gólfið mitt og hann (Tóti í flísabúðinni) átti einmitt nákvæmlega jafn mikið í einum pokanum. Grunnurinn er mjög þunnur og auðvelt að sulla honum á gólfið með stórum pensli.

IMG_3810.jpg
IMG_3814.jpg

Á meðan grunnurinn er að þorna er mjög nauðsynlegt að fá sér súkkulaðiköku og mjólk. Það tekur um það bil klukkutíma og þá er hægt að skella sér beint í næsta skref. Kvoða! Kvoða er mjög skemmtilegt efni, það er sægrænt, blágrænt eða blásægrænt á litinn (það var mikið rifist um þetta), lyktar mjög mikið og er eins og fljótandi tyggigúmmí. Maður kemst eiginlega ekki hjá því að hugsa hvernig það sé að liggja í baði fullu af þessu gumsi. Allavegana, brotni hamarinn kom að góðum notum. Ég á aldrei spítur til að hræra í málningu já eða kvoðu. Brotnir hamrar, prjónar og skrúfjárn virka alveg jafn vel.  

Kvoðunni er, eins og grunninum, sullað á gólfið með pensli. Nema þú kannski meira smyrð henni á gólfið og aðeins upp á veggina, svona 1 cm ca. Af þessari gleði þarf tvær umferðir. Það er auðvelt að sjá hvenær kvoðan er orðin þurr og tilbúin fyrir aðra umferð en þá skiptir hún um lit og verður fallega grasgræn (um það var ekki deilt). 

IMG_3817.jpg
IMG_3820.jpg
IMG_3827.jpg

Nú er loksins komið að aðal fjörinu. Flísar! Kvöldið áður en að við fórum að líma niður þá raðaði ég nokkrum flísum til þess að finna út úr því hvernig væri best að gera þetta (hér má einnig sjá fúguna þegar hún er orðin þurr).

IMG_3832.jpg

Við ákváðum að fara leið 1. Mér fannst fallegra að flísarnar mynduðu ekki beina línu þegar horft væri inn eftir gólfinu og þá var líka meira mál að skera þær. Já meira, ekki minna. Það verður að vera smá fútt í þessu.  

Til þess að fá þetta sem beinast strengdi pabbi línu frá hurðinni og langsum yfir gólfið. Við notuðum hana svo til þess að miða allt út frá. 

IMG_3839.jpg
IMG_3842.jpg
IMG_3844.jpg

Ég fékk að blanda flísalímið, það er varla hægt að segja að það sé flókið en það var frekar erfitt. Þá aðallega sökum þess hvað ég er aum og maður þarf að vera sterkur til þess að hræra það nógu vel saman. Verkstjórinn tekur eitthvað kekkjótt sull ekki gilt.  

Þetta gekk svo bara flís fyrir flís. Lím á gólfið, slétta úr því, raða flísum, setja krossa á milli og endurtaka.

IMG_4016.JPG
IMG_4030.JPG

Ótrúlega einbeitt feðgin á ferð. Það var svakaleg vinna að setja krossana á milli flísanna. Við héldum til að byrja með að við þyrftum ekki nema einn pakka, svona eins og 200 krossa en viti menn það fóru rúmlega 900 krossar í allt gólfið og eiginlega fleiri þar sem að við endurnýttum alveg helling af þeim.  

Boðið var upp á einstakar vinnuaðstæður. 

IMG_3855.jpg
IMG_3858.jpg
IMG_4035.jpg
IMG_3876.jpg

Eftir bróðurpartinn úr sunnudegi, tvær ferðir í Húsasmiðjuna og eina í IKEA þá leit gólfið svona út. Ég veit hvað þið eruð að hugsa, hmm skrýtið að hætta að flísaleggja þegar það eru bara örfáar flísar eftir. Pabbi þreyttur? Já nei. Einhver (ég) keypti ekki aaaalveg nógu mikið af flísum. Reyndar held ég að tæknilega séð hafi ég keypti nógu margar flísar en ég vildi ekki hafa nema 1 mm bil á milli flísanna en þar sem framleiðandinn gerir ráð fyrir 4 mm og magnið í pakkanum er reiknað út frá því. Þegar þú ert með sex hliðar á hverri flís þá er þriggja millimetra munur fljótur að telja. 

IMG_4039.jpg

Bara ein eftir!!! (Já ég gerði þrjú upphrópunarmerki, hvað með það?) Það voru sem sagt sem betur fer til fleiri flísar og pabbi var eldsnöggur að klára þetta. 

IMG_4049.jpg

Á eftir flísum kemur fúga og almáttugur minn, svört fúga er subbuleg, sóðaleg og svakalega svört. Það var alveg eins og pabbi væri að smyrja bleki á gólfið. 

IMG_4055.jpg

Þegar fúgan var komin niður (og á veggina, í baðkarið og á sturtuhengið) þá skúraði pabbi gólfið örugglega þrisvar sinnum og ég tvisvar. Subb, subb, subb. Daginn eftir kíttuðum við svo meðfram gólfinu og þegar ég segi við þá meina ég pabbi kíttaði 90% svo kláraðist kíttið og hann þurfti að fara í flug svo ofurhetjan ég kláraði síðustu 10% eftir hundruðustu ferðina í Húsasmiðjuna.  

Þetta gengur einhvernvegin svona fyrir sig, kítta, spreyja með hreinsiefni (ekki spurja mig afhverju) og skafa með þar til gerðum kíttisköfugaur eða puttanum (ég mæli með gaurnum, þetta er subbulegt).

IMG_3916.jpg
IMG_3920.jpg
IMG_3922.jpg

Þá var þetta bara búið! Fimm dagar af púli (aðalega púl fyrir pabba samt, takk pabbi) og við erum komin með nýtt gólf! 

IMG_3946.jpg
IMG_3952.jpg
IMG_3947.jpg

Þetta er algjör munur, það eru rúmlega tvær vikur síðan við kláruðum þetta og mér finnst þetta bylting. Það sést ekki næstum því jafn mikð á þessum flísum og hvítu glansandi flisunum sem voru áður. Skor fyrir því að þurfa ekki að moppa/ryksuga annan hvern dag. 

IMG_3936.jpg
IMG_0634.jpg

Þið sjáið líklega að það vantar enn vaskaskáp, vask og tilheyrandi, það er allt komið upp, tengt og tekið í notkun en ég er ekki alveg tilbúin til að deila því með ykkur og internetinu. Ég þarf ennþá að klára örfá smáatriði en ég er að vonast til að það gerist um helgina.