▴ hooked ▴

Ég elska snaga og hef alltaf gert. Ég held að það sé út af því að þegar ég og bróðir minn vorum lítil þá áttum við alltaf okkar eigin snaga, bæði heima og í sumarbústaðnum. Þeir voru bæði minni og festir neðar á vegginn heldur en fullorðins snagarnir. Það var einhver notaleg tilfinning sem að fylgdi þeim og nostalgían er að hellast yfir mig núna þegar ég skrifa þetta. Það viðurkennist hér með að þegar ég fer í sumarbústaðinn okkar núna þá freistast ég oft til að hengja lopapeysuna mína á gamla snagann minn. 

En nóg um það. Mig vantaði snaga fyrir svefnherbergið mitt. Fína snaga fyrir hálsmen, klúta og þessháttar. Þeir áttu að fara á miðjan vegginn fyrir ofan kommóðuna mína þannig að ég vildi bæði að þeir myndu virka sem snagar en líka að þeir væru fallegt veggskraut. Auðveldara sagt en gert...

Hér koma nokkrir fallegir snagar sem ég rakst á í leit minni að hinum fullkomnu snögum.

 

The Dots frá Muuto. Hannaðir af Lars Tornøe. Mynd fengin frá Dressed by Style.

 

Og síðast en ekki síst, snagarnir sem að ég endaði á að láta Epal sérpanta fyrir mig. Snagarnir heita Diamond Hooks og fást bæði í ljósri og dökkri eik. Þeir eru frá Ferm Living, en það er danskt hönnunarfyrirtæki sem er í mjög miklu uppáhaldi hjá mér. Eitthvað af vörunum þeirra fást í Epal en það er hægt að óska eftir sérpöntun á því sem ekki er til í búðinni hjá þeim. Verðið er mjög svipað því og á dönsku síðunni.

Ég er mjög ánægð með útkomuna, raunveruleikinn er hinsvegar sá að það sést sjaldnast í snaga greyin fyrir klútum, bindum, slaufum og hálsmenum, en til þess eru þeir víst.