▴ svalir og/eða sólpallur ▴

Smá flashback til heiðurs litla drengnum sem er ný farinn að heiman. Um leið og ég sá svalirnar út frá íbúðinni minni þá fékk ég þá flugu í hausinn að það væri sniðugt að útbúa einhverskonar bekk á þær sem myndi leggjast upp að þakinu. 

svalir1.jpg

Svalirnar eru ekki mjög stórar svo að það var mikilvægt að finna einhverja lausn sem myndi gera það að verkum að rýmið myndi nýtast sem best.  

Við keyptum allt efnið í bekkinn í Bauhaus (halló uppáhalds) og ó bojj hvað það var skemmtilegt verkefni. Pallaefni er mjög langt, allt of langt til að komast í lítin fólksbíl, og faðir, stóri bíllinn hans og kerran búa á Akureyri, sem er því miður ansi langt frá Bauhaus. Þá var ekki annað í stöðunni en að fá lánaða kerru. Það var nú reyndar ekki svo mikið mál, bara að hringja í eina góða móðursystur, trufla hana í sumarbústað og fá að stela kerrunni hennar af bílastæði í Hafnarfirði. Bíllinn minn er hinsvegar auðvitað ekki með krók og eiginlega bara engir bílar í Reykjavík. Þurfi þið aldrei að draga neitt? Norðfirðingur kom okkur til bjargar á ögurstundu, takk Sveinn Tjörvi, og lánaði okkur bílinn sinn einn eftirmiðdag. 

spitur.jpg

Egill byrjaði á því að festa undirstöðurnar eða festingarnar við þakið og svalaveggina. Allt saman boltað kirfilega niður. Mig minnir reyndar að hann hafi ekki fest stoðirnar tvær í miðjunni við þakið heldur eru þær bara festar við fyrsta plankann sem sést á myndinni hérna fyrir neðan. 

svalir2.jpg
svalir3.jpg

Svo var ekki annað eftir en að raða plönkunum á stoðirnar og skrúfa niður. Fagmaðurinn bróðir minn boraði fyrst göt í plankana og skrúfaði þá svo niður. Allt fyrir útlitið.

Þið eruð kannski búin að fattar að ég gerði ekkert gríðarlega mikið í þessum framkvæmdum, nema þá að fara með í Bauhaus og skipta mér af og vera fyrir. Ég kem þó örlítið við sögu á eftir...

...spennandi. 

IMG_5143.jpg
IMG_5151.jpg

Hér ber að líta öll þau tól og tæki sem þarf til þess að byggja svalapall. Takið eftir að það þarf a.m.k. þrjár borvélar. Já og svo auðvitað húsköttinn. Sjáiði líka hvað það er fáránlega gott veður? Greinilega ekki sumarið 2013.

Ég málaði svalahandriðið. Það munaði alveg ótrúlega miklu. Það væri ekki of djúpt í árina tekið að segja að þessar svalir eru að hruni komnar og það molnar upp úr handrðinu mjög auðveldlega. Þessvegna er mikilvægt að mála þær regluleg, "líma" þær aðeins saman.

Reyndar var ég svo "heppin" að málararnir sem máluðu þakið árið áður keyrðu á lyftunni beint á svalirnar og brutu handriðið. Ó hvað ég var glöð daginn sem að ég kom heim úr vinnunni og fann svalirnar mínar í molum, good times. En þeir löguðu þetta eftir sig og ég fékk líklega aðeins betra handrið fyrir vikið þó svo að mér hafi ekki verið skemmt á sínum tíma. Núna er ég búin að eyða hálftíma í að leita að mynd af brotnum svölum en ég finn hana hvergi, óheppin þið.

IMG_5155.jpg

Þetta getur hún. Brosandi með pensil í hendi og úfið hár. Málningargallinn minn er alltaf gray on gray. Bara afþví að það er svo töff. Sjáiði líkahvað handriðið er orðið hvítt og fallegt!

Þó að bekkurinn hafi upphaflega verið mín hugmynd þá sá Egill alveg um útfærsluna og fékk þá góðu hugmynd að setja líka planka á sjálft svalagólfið. Útkoman er heldur betur glæsilega, allt aðrar svalir, eiginlega bara sólpallur!

IMG_5188.jpg

Svo þurfti að bera á pallinn. Ein rífleg umferð af viðarvörn á allt heila klabbið.  Ég átti svo að bera aftur á núna í sumar en ég get svo svarið það, það var rigning alltaf þegar ég ætlaði að gera það. Alltaf.

IMG_5189.jpg
IMG_5195.jpg

Að lokum, áður en ég drep ykkur úr leiðindum með myndum af spítum, afraksturinn í allri sinni dýrð (ekki taka eftir því að á þessar mynd á ég eftir að bera á pallinn).

final.jpg

Það er eitthvað að, ég get ekki hætt. Ein í viðbót, bara ein. 

svalirfyrirogeftir.jpg