▴ grænt ▴

alltergrænt.jpg

Eitt dimmt síðdegi í janúar lagði ég leið mína í Garðheima í þeim tilgangi að fjárfæsta í grænu gulli, þ.e. pottaplöntum. Ég hef aldrei, og þá meina ég aldrei, getað haldið lífið í blómum. Margoft drepið kaktusa, ég sver það. Undanfarið hef ég þó reynt af öllum krafti að halda lífi í nokkrum þykkblöðungum enda með því fallegasta sem ég veit.

Þessir heilluðu mig í Los Angeles í haust. 

Þessir heilluðu mig í Los Angeles í haust. 

Það hefur gengið svona upp og ofan. Hef því miður murkað lífið úr nokkrum en alltaf staðið upp aftur og keypt nýjan í staðinn. Það kveikti hjá mér smá bakteríu og eitt og eitt blóm hefur verið að laumast inn til mín í vetur. Hjalti hefur samt enn yfirumsjón með vökvun og aðhlynningu, meðan ég er að reyna að fá græna fingur. 

Þetta er greyið sem hefur lifað lengst. Nýverið tók hann mjög undarlegan vaxtarkipp.

þykkb2.jpg

Þetta krútt tók nýlega við af öðru kaktusakrútti sem gafst upp á mér. Hvort að það var fyrir ofvökvun eða ofþurk veit ég ekki. 

Allavegana, ég var víst að tala um að ég hafi farið í Garðheima, svo fór ég bara eitthvað að blaðra. Það voru pottablómadagar hjá þeim og 20% afsláttur af öllum blómum, jeijj. Ég fór og hamstraði. Bróður mínum, sem var píndur með, fannst ekkert rosalega gaman. Ég var lengi. 

blóm.jpg

Ótrúlega mikið af fallegum blómum! Ég var sérstaklega hrifin af grænu bauna blóminu. Það heitir pottþétt Ora. Ég endaði á að kaupa mér tvö blóm og einn kaktus. 

Fyrra blómið fékk stofugluggann. Það kúrir þar alsælt í janúarbirtunni og bíður vors. Stundum fá hin blómin að koma í heimsókn í sólina.

blomgluggi.jpg

Seinna blómið, sem heitir piparskott á heima inni á baði. Í nýrri hillu. Hún er svo ný að hún var ekki einusinni komin upp á vegg þegar við tókum myndirnar af baðinu um daginn. En hér er hún og blómið. Vonandi, með tímanum, á skottið eftir að vaxa og lafa meira fram af hillunni. Það er yndislegt að hafa blóm inni á baði.

blombad.jpg

▴ what does the fox say? ▴

Þegar ég var að skrifa meistararitgerðina mína fann ég mér ótrúlegustu hluti til að gera annað en að skrifa, svona eins og að kaupa íbúð og fara ótal, ótal ferðir í Góða hirðinn. Þegar ég segi ótal þá meina ég óteljandi ótal. Ég held að ég hafi verið orðin fíkill á háu stigi. Þegar ég var búin að sanka að mér svo miklu dóti og allt of mörgum bókum þá ákvað ég að reyna að hafa smá hemil á mér. Þú veist, fara bara einu sinni í mánuði ekki einu sinni í viku. Það tókst ágætlega en mér finnst samt enn alveg rosalega skemmtilegt að fara þarna og gramsla og tala nú ekki um ef að ég finn eitthvað frábært á svo gott sem engan pening. Reyndar finnst mér verðin hjá þeim hafa hækkað óþarflega mikið en það er önnur saga. 

Allavegana. Í september á síðast ári þá keypti ég ótrúlega fallega mynd frá twamies á Etsy (önnur uppáhaldsbúð ef út í það er farið). Eftir að hún var komin til landsins tók endalausan tíma að finna ramma, ég viðurkenni þó að ég fór kannski ekki í allar réttu búðirnar en ég var alltaf með augun opin, en það virðist ekki vera til of mikið af römmum sem eru hvítir ferningar. 

Lausnina fann ég í Góða hirðinum um daginn. Ég keypti gamlan fallegan ramma sem passaði akkurat fyrir myndina og málaði hann hvítan. 

IMG_5778.jpg

Það eina sem þarf fyrir svona yfirhalningu er:

  • Málning og pensill.

Ég notaði LADY Interior Finish frá Jotun. Þetta er mjög þægileg málning á allt tréverk, hún er með akrílgrunni þannig að það er líka auðvelt að þrífa pensla og skítuga putta eftir á. 

Ég þurfi að mála þrjár umferðir á rammann. Hérna er hann eftir eina...

... og eftir þrjár.

Ég er mjög ánægð með loka niðurstöðuna. Líka algjör munur að borga ekki nema 100 kr. og eina kvöldstund af dundi fyrir rammann. Verkefnið tók mig ekki nema 3 tíma að þurktíma meðtöldum. Fínt föndur á mánudagskvöldi. Myndin úr rammanum fannst mér reyndar mjög falleg. Kannski finn ég heimili fyrir hana einhvern tímann seinna. 

IMG_5774.jpg

Rebbi litli á núna heima inni á baði. Mér finnst eitthvað svo huggulegt að hafa list á baðherberginu. 

Nú er bara um að gera að finna gamla ramma og mála þá í öllum regnbogans litum.

▴ BAÐIÐ ▴

Það er komið að  því. Baðið er tilbúið. Það er búið að taka af því myndir. Síðasti naglinn var nelgdur í vegginn í gær um það bil 3 sekúndum áður en fyrsta myndin var tekin. 

Fyrst smá upprifjun. Svona leit baðherbergið út þegar ég flutti inn. Ekki svo slæmt myndi einhver líklega einhver hugsa en eftir að hafa búið hérna í smá tíma þá fengum við mjög mikla leið á panelnum í loftinu og vaskaskápurinn var einstaklega illa hannaður. Eina sem hann gerði (utan við að geyma vaskinn) var að taka pláss án þess að í honum væri nokkurt geymslupláss og hægt og rólega flagna og fara í taugarnar á mér. 

tumblr_lj7ewryLS11qgux35.jpg

Svo máluðum við loftið og veggina. Þá leit þetta einhvern veginn svona út. 

bad1.jpg

Svo var brotið og flísalagt, flísalagt og flísalagt. Þeir sem eru búnir að gleyma eða bara hafa gaman af því að skoða myndir af flísalögn, ýtið hér

IMG_3936.jpg

Við létum þó ekki þar við sitja. Fólk þarf vatn. Fólk þarf að geta tannburstað sig. Fólk þarf vask. Þvottavél, handklæði og allskonar drasl. Við keyptum okkur hinn sívinsæla GODMORGON vaskaskáp frá IKEA, BRÅVIKEN vask og LUNDSKÄR blöndunartæki. Fyrst hafði ég hugsað mér að gera þetta í tveimur áföndum, svona aðeins að reyna að hugsa um fjármálin, en svo var frekar mikil rökleysa að bogra við að flísaleggja undir gamla vaskaskápinn og þurfa svo að rífa allt upp aftur þegar ég tímdi að kaupa mér vask. Vinnuaflið var líka til taks, mjög nauðsynlegur hluti af þessu öllu saman. Ég kann ekki að tengja vatnslás og hengja upp IKEA skáp án þess að lesa leiðbeiningarnar. Það kann hinsegar bróðir minn af ástæðum mér ókunnum. 

Nú held ég að það sé ekki eftir neinu að bíða. Ég ætla að leyfa myndunum að tala. 

IMG_0295.jpg
IMG_0309.jpg
IMG_0328.jpg
IMG_0340.jpg
IMG_0331.jpg
IMG_0312.jpg
IMG_0360.jpg

Ég hef áður sagt það, og segi það enn, það er mjög erfitt að taka eins fyrir og eftir mynd. Í hita leiksins á þetta alveg til að gleymast. Hér kemur okkar besta tilraun. Ég segi okkar, því það má víst ekki gleymast að þakka elskulegum ástmanni fyrir að taka myndirnar fyrir mig. Eins bróður fyrir að lána okkur nýju myndavélina sína sem gerði þetta allt saman mögulegt í janúar myrkrinu (þetta var í alvöru talað svona eins klukkutíma gluggi sem myndatakan var möguleg). Án ykkar væri ég ekkert, Ást.

fyrirogeftirbad.jpg