▴ Stofan 2/2 ▴

Á sunnudagskvöldið skrifaði ég eftirfarandi: "Ég stend heldur betur við loforðin, og það á fyrsta degi vikunnar." Svo ekki orðinu meir, haha. En það er nú bara þriðjudagskvöld. Ekki svo slæmur árangur.

Byrjum á byrjuninni. Innflutningsdagur, 1. apríl 2011. Panell í loftinu, hangandi Rússar (the bad kind) og stofan virkar þrisvar sinnum minni. Myndin er líka minni, en það kemur málinu ekkert við.

24 tímum síðar. Loftið var málað hvítt og þvílíkur munur. Allt í drasli á þessari mynd en þið bara lítið fram hjá því.

Svo liðu tvö ár þar sem allskonar tilfæringar og breytingar á stofunni voru ekki myndaðar né skjalfestar. Um mitt ár 2013, eftir að ég fékk mér nýjan sófa, leit hún einhvernvegin svona út.

Og ef einhver er búinn að gleyma hversu frábær gamli sófinn minn var, gjöriði svo vel.

Þá hugsa ég að við séum stödd í lok febrúar 2014. Þá misstum við tímabundið vitið, stofan tekin í nefið samhliða því að stigaganginum var svo gott sem rústað og komið í ásættanlegt horf aftur.

Ég get reyndar ekki eignað mér neitt af breytingunum á stofunni. Hjalti minn hafði úrslita atkvæðið við valið á nýja skenkinum og tók svo alla málningarvinnuna að sér. Ég sat reyndar ekki aðgerðarlaus á meðan, halló múrbrot, halló spartl. Eftir að skenkurinn var kominn, en áður en að við máluðum leit þetta svona út. Afsakið svakalega léleg símamyndavélagæði. Já og Sigmund í sjónvarpinu.

Erfiðasta við þetta allt saman var að velja litinn á stofuna. Við sátum hérna í sófanum eitt kvöldið (þar sem ég sit/ligg núna) og ég hálf mumbla eitthvað hvort að það væri kannski næs að mála stofuna gráa. Hjalti greip þessa hugmynd heldur betur lofti og það var ekki aftur snúið. Ég hugsa að ég hafi eytt alla veganna 40 mínútum með litaprufunum í Húsasmiðjunni eftir að Hjalti var búinn að fara þangað og koma heim með 3 litaprufur sem voru allar hálf ómögulegar. Hversu erfitt er að finna gráan lit. 

Við enduðum á því að velja engan af ofangreindum litum. Heldur litinn sem er einum tóni ljósari heldur en efsta prufan í miðjunni. Hann heitir Morgendis og er nr. 9915 frá Jotun. Líkt og með baðherbergið og skrifstofuna þá tókum við litinn í supermöttu sem mér finnst koma frábærlega út. 

IMG_5739.jpg

Ég er mjög ánægð með útkomuna. Ég vildi fá alveg kaldan lit og þessi ætti að vera það enda alveg hrár grár (gott rím). Mér finnst ég samt sjá smá rauðan blæ á honum stundum, en ég held að það séu bara ljósin og parketið á plata mig. Næst verðum við kannski enn hugrakkari og förum einum tóni dekkra. 

En nóg af kjaftæði. Núna er komið að góða stöffinu. 

IMG_6572.jpg

Þetta skerpir svo á öllu! Listar og gluggar og listaverk verða þúsundsinnum fallegri eftir þessar breytingar.

Ohh hversu fallegt! Skennkurinn heitir Curat og er frá ILVA. Sagan af því hvernig við loksins fengum hann í hendurnar (í hendurnar, segir maður það kannski bara um börn?) er mjög löng og dramatísk og ég ætla því að hlífa ykkur við henni. Tímaritastandinn fékk ég fyrir um 2 árum í Habitat, á útsölu, fáránlega góð kaup. Nýjasta blómið, indjánafjöðrin, stendur á nýja uppáhalds hlutnum okkar, steyptum blómapotti (á hvolfi) sem er líka frá Habitat. Mögulega uppáhalds búðin mín.

Tímabundna heimili veggspjaldsins eftir hana Nynne Rosenvinge sem að ég fékk hjá Snúrunni.

IMG_5882.jpg

Ein í lokin, fyrir alla fyrir&eftir perrana.

fyrir&eftir.jpg

▴ Stofan 1/2▴

Skemmtilegar fréttir! UNDIR SÚÐ verður í smá innliti í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. Það voru teknar myndir hér hátt og lágt í dag og ég hlakka mjög til þess að sjá útkomuna. Mæli með að allir næli sér í blaðið.

Þessi heimsókn minnti mig á að ég var aldrei búin að sýna ykkur myndir úr stofunni minni sem ég tók sama dag og Hús og híbýli komu við. Ég get því eiginlega ekki leyft ykkur að sjá stofuna eins og hún er eftir breytingarnar fyrr en að þið eruð búin að sjá hvernig hún var fyrir þær. Þannig að. Hér kemur þetta. Svo fái þið að sjá nýju myndirnar í næstu viku með smá forskoti á sunnudaginn.

Sjáiði fínu myndina okkar á veggnum? Nei, hélt einmitt ekki.

IMG_6164.jpg

Sótið á veggjunum er hinsvegar einstaklega áberandi. Lausnin? Mála yfir það.

IMG_6265.jpg