▴ edamame dumplings með truffluolíu

Þegar við vorum í LA þá borðuðum við eitt kvöld á stað sem heitir True Food Kitchen. Á matseðlinum var forréttur sem hét Edamame Dumplings with Daikon Radish and White Truffle Oil. Halló! Allt sem ég elska , dumplingar (namm), edamame (namm) og truffluolía (namm, namm, namm). Við gerðum þau mistök að panta okkur einn skammt saman, ég á sem betur fer ágætan kærasta sem leyfði mér að borða meirihlutann af réttinum. Ég heimtaði svo að koma aftur nokkrum dögum seinna, mmm meiri dumplings.

Þegar heim var komið var augljóst að ég þurfti að læra að búa til þessa snilld, ég gramsaði smá á internetinu og fann uppskrift sem ég notaðist við í grunninn. Í gærkvöldi var svo prufukeyrsla og niðurstaðan var svo góð að Hjalti sagði "betra en á þarna staðnum". Varla hægt að fá betra hrós.

Hér kemur uppskriftin, hún dugar í ca. 20 stk sem er fullkomið fyrir 4 í forrétt eða 2 í aðalrétt.

Fyllingin

 • 1 poki af edamame baunum*
 • 1/2 bolli / 120 ml. af mjólk
 • 1/4 bolli / 60 gr. af smjöri
 • 2 msk. truffluolía eða eftir smekk**
 • 1 msk. sítrónusafi eða eftir smekk
 • Salt og pipar eftir smekk (það þarf frekar mikið salt) 

Soðið 

 • 3 bollar / 700 ml. af vatni
 • 1/4 bolli / 25 gr. af þurkuðum shiitake sveppum***
 • 1 msk. rifið engifer
 • 1 skalottlaukur, fínt saxaður
 • 1 bolli / 235 ml. mirin****
 • 1/2 bolli / 120 ml. af soya sósu, helst Kikkoman
 • Olía til steikingar
 • Salt og pipar eftir smekk

Annað 

 • Einn pakki af wonton blöðum*****
 • Vorlaukur
 • Kóríander
 • Chilli  

1) Fyrsta skrefið er að leggja sveppina í bleyti. Ég setti mína í sjóðandi vatn í um það bil klukkutíma og það var passlegt. 

2) Næs þarf að afþýða edamame baunirnar, það dugar að láta þær liggja í heitu vatni í smá stund. Síðan tekur við það skemmtiverk að pikka baunirnar úr belgjunum. Þegar það er búið eru þær soðnar með mjólkinni og smjörinu í 15 mínútur. Maukið með töfrasprota. Truffluolíunni og sítrónusafanum hrært saman við og kryddað eftir smekk. 

3) Þegar sveppirnir eru búnir að liggja nógu lengi í bleyti þá eru þeir teknir upp úr vatninu og það geymt þangað til seinna. Skerið sveppina í strimla, ég tók stilkana frá afþví að mér fannst þeir heldur harðir en það getur verið mismunandi. Rífið engiferið (eða saxið smátt) og saxið  skalottlaukinn fínt. 

4) Steikið sveppina, engiferið og  skalottlaukinn í potti þar til að laukurinn er orðinn mjúkur og gegnsær (passið engiferið, það brennur auðveldlega). Eftir um það bil 2 mínútur er mirin-inu bætt út í og soðið niður um helming. Þá er soðinu af sveppunum helt út í ásamt soya sósunni. Kryddið eftir smekk. Sjóðið í nokkrar mínútur. 

5) Nú er ekkert eftir nema setja dumplingana saman. Það er auðveldara að sýna hvernig best er að gera þetta með myndum heldur en með orðum, ég fékk þessar myndir góðfúslega lánaðar af Love and Lemmons

edamame-dumplings3_loveandlemons.jpg
edamame-dumplings4_loveandlemons.jpg

Það fer ríflega ein teskeið af fyllingu á hvert blað og annað lagt ofan á. Til þess að "líma" blöðin saman er best að hafa litla skál með vatni hliðina á sér og strjúka með blautum putta eftir öllum brúnunum á öðru blaðinu. Mikilvægt er að passa að ekkert loft sé eftir inni i dumplingnum annars eru líkur á að hann detti í sundur í suðu.  

6) Dumplingarnir eru settir út í sjóðandi vatn (gott að setja ekki nema 8-10 í einu) og soðnir í 1-2 mínútur eða þar til þeir fara að fljóta. Best er að veiða þá upp úr með fiskispaða einn og einn og leyfa vatninu að gufa vel upp af þeim.  

7) Borið fram í djúpum diski. 4-5 dumplingar settir í hvern disk og ein góð ausa af soðinu hellt yfir. Skreytt að vild með kóríander, chilli og vorlauk.  

8) Borða og deyja úr hamingju. Fá sér meira og verða of saddur.

1382020_10153355894255302_1905890421_n.jpg
IMG_4009.JPG

* Edamame baunir eru ferskar soyjabaunir sem fást frosnar í Nóatúni, Krónunni, Hagkaupum og einstaka sinnum í Bónus. Þær fást líka í hinum ýmsu asísku matvörubúðum.

** Það fæst ágætis truffluolía í Hagkaupum (því minni sem flaskan er því betri). Hún er svolítið dýr en halelúja hún er best í heimi og gerir allt svo miklu miklu betra. 

***  Þurkaða shiitake sveppi er hægt að fá í asískum matvörubúðum. Ég fékk mína í þessari í Skeifunni.

**** Mirin er hrísgrjónavín sem er notað til matargerðar. Ég fékk mitt í Kosti en ég hef ekki séð það annars staðar. Ef einhver veit betur þá má hinn sami endilega láta mig vita þar sem að mitt er búið og það er langt í Kost.

***** Wonton blöð er hægt að fá í asískum matvörubúðum. Ég kaupi mína alltaf í Skeifunni og mér finnst þessir í grænu umbúðunum bestir.  

best á sunnudögum - pönnukökur!

Ég elska að borða, ég elska brunch, ég elska að vakna á sunnudögum og fá mér að borða. HInsvegar getur brunch verið svolítð maus og húsið angar eins og beikon og pönnukökur næstu daga. Það er ekki vinsælt á mínu heimili (og þá meina ég hjá mér, strákunum er alveg sama). Til þess að svala brunch þörfinni hef ég gripið á það ráð að gera það sem ég kýs að kalla puffy pönnukökur .

Puffy pönnukökur spyr einhver? Hvað er það? Internetið kallar þessar ágætu pönnukökur mörgum nöfnum, puffy, puffed, þýskar, gamaldags og þar fram eftir götunum. Í rauninni eru þetta bara pönnukökur sem eru bakaðar í ofni og blása alveg svakalega út og í rauninni er þetta bara ein pönnukaka. Mér gengur illa að finna nógu lýsandi lýsingarorð (ha ha) fyrir pönnukökurnar á íslensku svo puffy pönnukökur verður það að vera. Gjöriði svo vel.

Puffy pönnukökur

 • 2 egg
 • 125 ml. mjólk (hálfur bolli)
 • 125 ml. hveiti (hálfur bolli)
 • 1 tsk. salt
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 1 msk. smjör

Ofninn hitaður í 180°.

Smjörið er sett í eldfast mót eða bökunarform (mitt er ca. 20x20 cm.) og skellt inn í ofninn þar til að smjörið er bráðið.

Á meðan smjörið bráðnar er öllu öðru er blandað saman í skál og pískað vel saman þangað til að það eru ekki lengur kekkir í deiginu. 

Hellið deiginu í formið og bakið í ca. 20 mínútur eða þar til að pönnukakan hefur blásði út og kantarnir hafa tekið á sig smá lit.  Ég mæli með því að horfa stíft á ofninn síðustu mínúturnar þar sem að þetta blæs ansi hratt út og er mikil skemmtun. 

Borið fram með smá flórsykri og hlynsírópi. Mér finnst líka voða gott að setja smá bláber, jarðaber, hindber, sítrónu eða súkkulaði ofan á pönnukökuna þegar hún kemur úr ofninum. 

 

Uppskriftin er upprunalega af Rockstar Diaries.