best á sunnudögum - pönnukökur!

Ég elska að borða, ég elska brunch, ég elska að vakna á sunnudögum og fá mér að borða. HInsvegar getur brunch verið svolítð maus og húsið angar eins og beikon og pönnukökur næstu daga. Það er ekki vinsælt á mínu heimili (og þá meina ég hjá mér, strákunum er alveg sama). Til þess að svala brunch þörfinni hef ég gripið á það ráð að gera það sem ég kýs að kalla puffy pönnukökur .

Puffy pönnukökur spyr einhver? Hvað er það? Internetið kallar þessar ágætu pönnukökur mörgum nöfnum, puffy, puffed, þýskar, gamaldags og þar fram eftir götunum. Í rauninni eru þetta bara pönnukökur sem eru bakaðar í ofni og blása alveg svakalega út og í rauninni er þetta bara ein pönnukaka. Mér gengur illa að finna nógu lýsandi lýsingarorð (ha ha) fyrir pönnukökurnar á íslensku svo puffy pönnukökur verður það að vera. Gjöriði svo vel.

Puffy pönnukökur

  • 2 egg
  • 125 ml. mjólk (hálfur bolli)
  • 125 ml. hveiti (hálfur bolli)
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1 msk. smjör

Ofninn hitaður í 180°.

Smjörið er sett í eldfast mót eða bökunarform (mitt er ca. 20x20 cm.) og skellt inn í ofninn þar til að smjörið er bráðið.

Á meðan smjörið bráðnar er öllu öðru er blandað saman í skál og pískað vel saman þangað til að það eru ekki lengur kekkir í deiginu. 

Hellið deiginu í formið og bakið í ca. 20 mínútur eða þar til að pönnukakan hefur blásði út og kantarnir hafa tekið á sig smá lit.  Ég mæli með því að horfa stíft á ofninn síðustu mínúturnar þar sem að þetta blæs ansi hratt út og er mikil skemmtun. 

Borið fram með smá flórsykri og hlynsírópi. Mér finnst líka voða gott að setja smá bláber, jarðaber, hindber, sítrónu eða súkkulaði ofan á pönnukökuna þegar hún kemur úr ofninum. 

 

Uppskriftin er upprunalega af Rockstar Diaries.